Vegalengdir í boði

Í Jökulsárhlaupinu er hægt að velja um þrjár vegalengdir: 32,7 km, 21,2 km og 13 km. Lengsta leiðin byrjar við Dettifoss. Millivegalengdin leggur af stað frá Hólmatungum

og styðsti leggurinn byrjar við Hljóðakletta. Öll hlaupin enda í Ásbyrgi. Ræst er í hlaupin á mismunandi tíma. Dettifoss hlauparar fara af stað kl. 11:00, frá Hólmatungum er ræst kl. 12:00 og frá Hljóðaklettum fara hlauparar kl. 13:30. Þetta er gert til þess að sem flestir hlauparar komi í mark á svipuðum tíma en einnig til að nýta rútuferðir á rásstaði.
hæðargraf1

32,7 KM: DETTIFOSS - ÁSBYRGI

Icon 01

Dettifoss-Ásbyrgi

Lengsta hlaupaleiðin hefst við Dettifoss og endar í Ásbyrgi. Hlauparar hlaupa meðfram Jökulsárgljúfrum, með Jökulsá á Fjöllum sér á hægri hönd. Eftir um 20 km hlaup, þegar komið er í Vesturdal, liggur leiðin frá ánni, framhjá Hljóðaklettum, inn á Ásheiðina og að Ásbyrgi sjálfu. Lokaleggur leiðarinnar er síðan eftir austurbarmi Ásbyrgis. Óhætt er að segja að þessi hlaupaleið eigi sér engan líkan hvað varðar fjölbreytni. Hlaupið hefst í hrjóstugu og kraftmiklu umhverfi Dettifoss og endar í gróskumiklu umhverfi Ásbyrgis. Hlaupið er eftir melum, moldargötum, gömlum fjárgötum, yfir klappir, um kjarrlendi og birkiskóg. Stuttu eftir Hólmatungur, þegar hlaupnir hafa verið 14 km, þarf að vaða eina á, Stallá. Níu drykkjarstöðvar eru á leiðinni: Í rásmarki, norðan Hafragils, í Hólmatungum, við Stallá, við Hljóðakletta, vestan Rauðhóla, við Klappir (Ásbyrgisbotn), við Tófugjá (austan megin á barmi Ásbyrgis) og að lokum í marki.

21,2 KM: HÓLMATUNGUR - ÁSBYRGI

Icon 02

Hólmatungur-Ásbyrgi

Næstlengsta vegalengdin hefst í Hólmatungum en endar eins og allar leiðir í Ásbyrgi. Í Hólmatungum fara saman miklar andstæður, ótal lækir og lindir renna þar út í beljandi, aurugt stórfljótið. Í skjóli hamra og kletta þrífst fjölbreytt samspil gróðurs og dýralífs. Hlauparar hlaupa með Jökulsá á Fjöllum sér á hægri hönd í um 8 km, þar til komið er í Vesturdal. Þaðan liggur leiðin frá ánni, framhjá Hljóðaklettum, inn á Ásheiðina og að Ásbyrgi sjálfu. Lokaleggur leiðarinnar er síðan eftir austurbarmi Ásbyrgis. Endamarkið er við Gljúfrastofu, í mynni Ásbyrgis. Hlaupaleiðin liggur eftir stígakerfi þjóðgarðsins. Stór hluti stíganna eru gamlar fjárgötur en margar þeirra er búið að lagfæra, breikka og bera í möl. Umhverfið er tilkomumikið og fjölbreytt, gróskumiklar lindir, kjarrlendi, fjölbreyttar jarðmyndanir og friðsælt skóglendi. Um fjórum kílómetrum frá rásmarki þarf að vaða yfir eina lindá, Stallá. Sjö drykkjarstöðvar eru á leiðinni: Í rásmarki, við Stallá, við Hljóðakletta (Vesturdal), vestan Rauðhóla, við Klappir (Ásbyrgisbotn), við Tófugjá og í endamarki.

13 KM: HLJÓÐAKLETTAR - ÁSBYRGI

Icon 03

Hljóðaklettar-Ásbyrgi

Frá Hljóðaklettum er í boði að keppa í 13 km hlaupi. Rásmark er við bílastæðið við Hljóðakletta og endamark er við Gljúfrastofu í Ásbyrgi. Fyrsti leggur leiðarinnar liggur meðfram Hljóðaklettunum sjálfum, einstökum gígtöppum þar sem finna má margvíslegar stuðlamyndanir. Fljótlega eftir Hljóðakletta liggur leiðin upp á við, upp úr Vesturdalnum, fram hjá Rauðhólum og upp á Ásheiðina. Frá Rauðhólum eru hlaupnar götur eftir gömlum farvegi Jökulsár, frá þeim tíma er Ásbyrgi myndaðist og er víða yfir klappir að fara. Leiðin liggur síðan í norður, að brún Ásbyrgis. Síðasti hluti leiðarinnar liggur síðan norður meðfram austurbrún Ásbyrgi, eftir göngu-/fjárgötum í birkiskógi. Fimm drykkjarstöðvar eru á leiðinni: Í rásmarki, vestan Rauðhóla, við Klappir (Ásbyrgisbotn), við Tófugjá og í endamarki.

Styrktaraðilar

  • logodanwww1
  • fjallalamblogo.fw
  • nordurthing.fw
  • vatnavatna