Saga Jökulsárhlaupsins

UPPHAF JÖKULSÁRHLAUPSINS

Það var Aðalsteinn Örn Snæþórsson, þá kennari í Lundi og hreppsnefndarmaður í Kelduneshreppi sem viðraði fyrstur hugmyndina að Jökulsárhlaupi. Hugmyndin að koma á legg víðavangshlaupi frá Dettifossi niður í Ásbyrgi, sem yrði kallað Jökulsárhlaup, fannst undirritaðri frábær hugmynd. Einkum var það nafnið á hlaupinu sem kitlaði en eins og allir vita eru jökulsárhlaup þekkt að afli, svokölluð hamfarahlaup. Þar leysast miklir kraftar úr læðingi. Mér fannst að þeir sem leggðu það á sig að hlaupa alla leið frá Dettifossi niður í Ásbyrgi hlytu að búa yfir ógnarkrafti og dálítilli geggjun til að leggja þvílíkt og annað eins á sig.Hreppsnefnd Kelduneshrepps samþykkti tillögu þess efnis að standa fyrir fyrsta Jökulsárhlaupinu og sjá hvort eitthvað vit væri í þessari hugmynd, hvort einhverjir myndu mæta á svæðið og hlaupa. Fljótlega kom fram sú hugmynd að bjóða einnig upp á styttra hlaup þ.e. frá Hljóðaklettum í Ásbyrgi og Þjóðgarðurinn bauð upp á göngu sömu leið.

Undirbúningur hófst af kappi og leitað var ráða hjá tveim hlaupurum sem við höfðum góðan aðgang að, þeim Kristjáni Halldórssyni, Kópaskeri, sem þekkti leiðina mjög vel og Eymundi Snatak Matthíassyni úr Reykjavík. Kristján sá að mestu um að semja leiðarlýsingu hlaupsins. Þá má ekki gleyma hlut Gunnars Jóhannessonar hjá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga, en hann hefur stutt mjög vel við hlaupið alla tíð, séð um tímatöku og tekið þátt í flestum undurbúningsfundum. Aðalsteinn Örn Snæþórsson, Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir, fyrrverandi þjóðgarðsvörður, María Jónsdóttir, fyrrverandi ferðamálafulltrúi og undirrituð (oddviti Kelduneshrepps) bárum þó hitann og þungan af því að hrinda hlaupinu í framkvæmd. Það sem kom mér mest á óvart (þar sem ég hafði aldrei komið nálægt víðavangshlaupum eða yfirleitt nokkru sem íþróttir snertir) var hvað undirbúningurinn var mikill og því fjöldi sjálfboðaliða sem við þurftum á að halda. Eftir uppástungu Kristjáns og Eymundar settum við upp brynningarstöðvar á 5 km fresti, eða alls 7 stöðvar, fengum björgunarsveitarmenn frá Húsavík og Kópaskeri til að vera með öryggisgæslu, og fjölda starfsfólks við rútur og þjónustu við endamarkið. Alls komu að hlaupinu milli 20 og 30 sjálfboðaliðar. Daginn fyrir hlaup áttuðum við okkur á að ekkert mark var til. Var þá gripið til þess ráðs að nota spjót sem við hengdum á fána sem fundust á heimilum. Þeir vildu síga og héngu yfirleitt í hálfa stöng.

Til að gera langa sögu stutta tókst þetta fyrsta hlaup afar vel. Alls hlupu um 80 manns, 30 frá Dettifossi en um 50 úr Vesturdal og 20 manns gengu úr Vesturdal undir leiðsögn landvarðar. Fór þessi þátttaka langt fram úr okkar björtustu vonum. Loftmyndir ehf gáfu öllum hlaupurum nýtt kort af Jökulsárgljúfrum og Vífilfell gaf alla orkudrykki, að öðru leyti kostaði Kelduneshreppur hlaupið. Ekki vorum við síður ánægð þegar við lásum umsagnir um hlaupið á hlaup.is.Fyrstu sigurvegarar Jökulsárhlaupsins voru:

Frá Dettifossi: Eymundur Snatak Matthíasson, Reykjavík 2:34:24

Áslaug Helgadóttir, Reykjavík 3:12:03

Frá Vesturdal: Haraldur Haraldsson, Húsavík 1:00.06

Rannveig Oddsdóttir, Akureyri 1:06:39

Eins og áður sagði dregur Jökulsárhlaup nafn sitt af hamfarahlaupum sem komið hafa í Jökulsá á Fjöllum,jökulsárhlaupum, en þá er hamurinn slíkur í ánni, að hún ber með sér björg sem vega tugi og jafnvel hundruð tonna. Einn slíkur steinn, um 8 tonn að þyngd var fluttur í Ásbyrgi eitt vorið og fékk það hlutverk að bera nöfn þeirra hlaupara, karls og konu, sem sigra hlaupið frá Dettifossi í Ásbyrgi hverju sinni. Steinninn stendur nú fyrir framan Gljúfrastofu í Ásbyrgi. Þetta framtak kostaði Íslandsbanki á sínum tíma auk þess að styðja við hlaupið þar til að SagaCapital fjárfestingarbanki varð aðalstyrktaraðili hlaupsins og hefur styrkt þetta hlaup myndarlega síðan 2008. Aðrir velunnarar hafa staðið við bakið á hlaupinu. Vífilfell hefur gefið orkudrykki frá byrjun, sveitarfélagið Norðurþing tók við af Kelduneshreppi með árlegan styrk og sl. sumar veitti 66°norður sigurvegurum lengstu vegalengdarinnar verðlaun, auk annarra smærri aðila.

Árið 2005 var bætt við þriðju hlaupaleiðinni Hólmatungur-Ásbyrgi. Voru nú hlaupaleiðirnar orðnar þrjár, 32,7 km Dettifoss; 21,2 km Hólmatungur og 13,2 km Vesturdalur. Það ár hlupu 35 manns frá Dettifossi, 15 manns úr Hólmatungum og 30 manns úr Vesturdal. Einnig gengu 40 manns úr Vesturdal í Ásbyrgi.

Árið 2006 var Jökulsárhlaup háð í himnablíðu. Hlaupnar þrjár vegalengdir og gengið úr Vesturdal. Alls tóku 152 manns þátt í hlaupinu og göngunni. Lögðu 67 hlauparar af stað frá Dettifossi en 61 skilaði sér í mark. Úr Hólmatungum hlupu 36 og úr Vesturdal 39. Tíu tóku þátt í göngunni. Eins og áður sagði var mikil veðurblíða í Jökulsárgljúfrum og háði hitinn hlaupurunum nokkuð. Allir komust þó óskaddaðir frá þrátt fyrir einstaka byltur. Eða eins og ein konan sagði þegar hún kom í mark: „Ég féll fyrir landslaginu - - fegurðinni."

Árið 2007 var hlaupið haldið í blíðskaparveðri. Öllu færri hlauparar tóku þátt að þessu sinni þar sem veðurspáin vikuna á undan var vægast sagt ekki hagstæð, en spáð var kulda og vætu. Hlaupið fór alla staði vel fram og góður andi ríkti á svæðinu eins og ævinlega.Sveitakeppni var nú haldin í fyrsta sinn. Árbæjarskokk sigraði á vegalengdinni Dettifoss - Ásbyrgi með samanlagðan tíma 8:13:16 og Eyrarskokk sigraði á vegalengdinni Vesturdalur - Ásbyrgi á samanlögðum tíma 4:03:23.

Árið 2008 var metþátttaka. Full heitt hlaupaveður en stemning góð á svæðinu. SagaCapital styrkti hlaupið myndarlega þetta árið og einnig tóku starfmenn bankans þátt í hlaupinu.

Árið 2009 bættist enn við þátttökufjöldann og hlupu nú 230 manns. Veðrið var gott framan af degi en fór að kólna þegar leið á. Tvö tímamet voru slegin þennan dag þegar Reynir Bjarni Egilsson hljóp frá Dettifossi á 2:24:41 og Aníta Hinriksdóttir 13 ára hljóp úr Hljóðaklettum á 1:01:53. Ungur drengur Tómas Zoëga sigraði hlaupið úr Hólmatungum. Tómas, sem er fæddur 1993 hefur tekið þátt í Jökulsárhlaupinu frá byrjun og var í þriðja sæti úr Hólmatungum árið 2005.Þegar þetta er skrifað er undirbúningur fyrir sjöunda Jökulsárhlaupið byrjaður og þegar hafa margir skráð sig á hlaup.is, sem er óvenju snemmt. Til gamans má geta þess að til að fylla spjaldið á steininum góða nöfnum sigurvegara, þurfum við að halda úti þessu hlaupi í 13 ár í viðbót. Við þurfum einnig að huga vel að sjálfboðaliðunum, sem koma ár eftir ár og brynna og þjóna hlaupurum með bros á vör.Að lokum vil ég þakka öllum sem að Jökulsárhlaupi hafa komið, jafnt hlaupurum, sjálfboðaliðum, björgunarsveitum, lækni, rútubílstjórunum sem ekið hafa með hlaupara frá byrjun eftir torfærum vegi. Þá er síðast að nefna fjölskyldur okkar sem að hlaupinu stöndum og hafa komið á hverju ári til að hjálpa til og taka þátt.

Lindarbrekku 1.maí 2010

Katrín Eymundsdóttir

Styrktaraðilar

  • logodanwww1
  • fjallalamblogo.fw
  • nordurthing.fw
  • vatnavatna